Móðir, maki, kennari og ljósmyndari.
Daðey heiti ég, móðir, maki, kennari og ljósmyndari. Ég hef haft áhuga á ljósmyndun frá því ég var krakki og man vel eftir mér leikandi með gamlar myndavélar sem foreldrar mínir áttu - stöðugt að ramma inn augnablikin með ónýtum myndavélum. Þar sem ég bjó út á landi þá voru takmörkuð tækifæri til þess að læra eitthvað af viti og alls ekki hlaupið að því að koma filmum í framköllun, sem að hluta til skýrir notkunarleysið á fyrstu alvöru myndavélinni minni, Olympus OM-101 filmuvél sem ég fékk í fermingargjöf frá systkinum mömmu.
Það var í raun ekki fyrr tuttugu árum seinna, 2016, að ég fer að garfa í ljósmyndun að einhverri alvöru. Ég keypti mér Canon EOS 70D, fór á grunnnámskeið og lærði að taka myndir Manual. Ég sinnti áhugamálinu þó ekki mikið, aðallega til að taka tækifærismyndir af börnunum. Jólin 2019 fæ ég svo Canon 5DmIII í jólagjöf frá Kára mínum og var því “tilneydd” til að endurnýja linsurnar mínar. Það greip mig eitthvað græjuæði og ég varð auðvitað að réttlæta öll þessi kaup með því að nota búnaðinn og úr varð að ég fór nú að gera mér sérstakar ferðir til að sinna áhugamálinu og gefa því meira pláss í hinu daglega amstri. Í dag nota ég Canon EOS R6 myndavél.
Landslagsmyndir og náttúran hafa fram til þessa skipað stærstan sess í mínu áhugamáli. Vorið 2022 opnaði ég litla stúdíóaðstöðu í bílskúrnum mínum og hóf að spreyta mig á barna- og fjölskyldumyndatökum eins og mig hefur lengi langað til. Það er ekki af ástæðulausu sem ég stefni á sérhæfingu í barnamyndatökum, en allt frá 2008 hef ég starfað í leik- og grunnskólum sem iðjuþjálfi, leikskólakennari, sérkennari og grunnskólakennari á yngsta stigi. Ég er í fjarnámi frá NYIP - New York Institute of Photography og hef lokið ýmsum netnámskeiðum frá The School of Photography og Kelly Brown Online.